B2: Bjarni Sigurbjörnsson


Altaristöflur Maju Sisku eru með áhugverðari myndlistarverkum þar sem unnið er með hefð kirkjulista og jafnframt skírskotað í byggingasögu íslenskra kirkna. Efnið sem listakonan velur sér til að mála þessar trúarlegu myndir á, eru um það bil hundrað ára gamlar bárujárnsplötur sem voru notaðar til klæðningar á Villingaholtskirkju, þessi gamli verndarhjúpur helgidómsins í Villingaholti er nú endurlífgaður í formi myndlistar. Það að nota gömul efni og gefa þeim nýtt líf með vísun í eigin sögu og þau gildi sem lesa má úr þeim er ekki nýtt fyrir Sisku. Sem arkitekt og Þjóðverji er henni hugleikin sú menningarlega arfleifð sem skapað hefur þýskt samfélag frá því í seinni heimstyrjöld. Hefur hún oft unnið með hugmyndir sem felast í endurskilgreiningu bygginga hvað varðar notkun og notagildi. Til dæmis lagði hún til í útskriftarverki sínu við Arizona State Universty þar sem hún lauk námi í arkítektúr, að í stað þess að rífa merkilega byggingu sem gerð var á tímum nasista vegna þess að hún vekti upp og héldi við þeirri sögu sem ætti að grafa niður í gleymskuna, þá yrði byggingin látin standa en gerð áætlun til að fá fólk til að sættast við hana og sjá hana í því ljósi sem það óskaði. Hún vildi gefa fólki möguleika á að koma með tillögur um hvað mætti gera til að gefa þessari forboðnu byggingu nýtt líf og nýja merkingu. Þessi djarfi arkitektúr sem Siska setur fram segir að bygging er ekki bara strúktúr heldur sú merking sem gefin er strúktúrnum og það samhengi sem hann er settur í.

Með því að nota bárujárn af gamalli kirkju, sem átti að henda, sem grunn að altaristöflum er Siska að segja okkur hversu mikil merking, list og saga er í efninu sem hlífði guðshúsinu gamla þar sem fólk lifði sínu trúarlífi í gegnum gleði og sorg. Með því að setja bárujárnið í nýtt samhengi, samhengi listarinnar, verður til efni hlaðið merkingu sem annars hefði verið talið ónýtt. Það fær nýtt gildi sem byggist engu að síður á sögu þess.

 Formið sem Siska velur fyrir verk sín er hin sígilda og gamla þrískipta altaristafla, miðmynd með tveimur hliðarvængjum sem hægt er að loka. Þetta var þekkt form, m.a. á smærri íkonum sem með þessu lagi urðu síður fyrir skemmdum á ferðalögum.

En ef ætti að nefna þrískiptar altaristöflur sem hafa orðið fræg verk í sögunni mætti telja altaristöflu Matthias Grünewald (um 1475-1528). Þegar hún er lokuð sýnir hún krossfestingu Krists og er þetta einhver allra áhrifamesta krossfestingarmynd sögunnar. Þegar taflan er síðan opnuð birtist gerólík mynd: fyrst á vinstri hönd er boðun Maríu, síðan í miðju María mey og barn með englum, en á hægri hönd upprisan. Í þessari mynd er óhætt að segja að þrískipt formið og lokunin séu notuð til gera verkið enn áhrifameira, Þessa sömu aðferð notar Siska á nútímalegan hátt í sínum altaristöflum. Þegar taflan er lokuð sýnir hún mynd sem sagan málaði sjálf án aðkomu listamannsins. Síðan, þegar opnað er, birtast myndir unnar út frá bárujárninu með öðrum nútímaefnum sem gefa nýtt lag merkingar í lit, táknum og formi. Með þessum verkum finnst mér Siska gera gríðlega áhrifaríka tilraun til að nálgast trúarlega myndlist með ferskum hætti, laus við allan hégóma og tepruskap.

Desember 2006

Bjarni Sigurbjörnsson, listamaður