b2: Texti í fjórum hlutum, (feb. 2009), Maja Siska og Helene Renard

Efni / menning / agi / vinna

 

1. Bárujárn

Áður en ég kom til Íslands bjó ég um árabil á Írlandi. Í báðum þessum löndum eru niðurníddir skúrar og útihús á víð og dreif í landslaginu, klæddir veðruðu bárujárni, og það hefur verið hluti af umhverfi mínu síðustu tólf árin. Ég hef alltaf laðast að þessu efni og furðað mig á því. Í sögulegu samhengi markaði bárujárnið miklar framfarir í byggingartækni; fram að því hafði torf verið notað í þök og veggi. Sinkliturinn minnir á flísar og stein, og þegar bárujárnið eldist og ryðgar minnir það á deyjandi plöntur að haustlagi. Þannig virðist það hafa tengingu við náttúrulegt umhverfið.

Dag einn meðan ég var að verða sífellt hugfangnari af bárujárninu spurði ég sjálfa mig: “Hví ekki að mála á gamalt ryðgað bárujárn?” Ég þekki bónda sem safnar alls konar hlutum og spurði hann hvort hann ætti eitthvert gamalt járn. Hann játti því en sagði að járnið væri mjög sérstakt,það væri hundrað ára gamalt og hefði verið notað til að klæða kirkjuna í Villlingaholti sem afi hans byggði. Fyrir um þrjátíu árum hafði kirkjan verið klædd upp á nýtt og þá hafði hann hirt gömlu járnplöturnar “ef ég kynni að hafa not fyrir þær einhvern tíma”. Þær lágu í bunka fyrir utan túnið, grónar í svörðinn, innan um gamla vélarblokk og annað rusl. Þá fór ég að hugsa um sögu járnsins og hvernig hún gæti fléttast inn í verk mitt.

 

2. Trúarmenning

Þegar ég var að alast upp í sveit í suðvesturhluta Þýskalands gekk ég í þann skóla sem næstur var. Í menningunni þarna var kaþólskan allsráðandi. Ég gerði mér grein fyrir að mikið af því væri hræsni og ég sá alls konar leiksýningar við guðsþjónustur. En á hinn bóginn á ég margar skýrar minningar um ýmislegt sem varðar kirkjuna og rítúölin þar, og um fagurfræði kaþólskunnar, sem hefur fest í huga mér og er undirliggjandi í sumum verka minna. Þegar ég var um sextán ára fór ég að skoða kirkjur upp á mitt einsdæmi, án þess að hirða um hvaða söfnuði þær tilheyrðu. Ég fór til að upplifa andrúmsloftið, arkitektúrinn og gamla muni sem þar voru.

Enn í dag, þegar ég kem til Ulm, geri ég mér far um að koma í stóru gömlu dómkirkjuna, Ulmer Münster, þar sem andrúmsloftið er sterkt. Ég var vön að koma þangað þegar ég vissi að organistinn væri að æfa sig. Þannig fannst mér upplifun mín af rýminu fullkomnast. Ég fékk sterka tilfinningu fyrir liðnum öldum og þætti mínum í samfellu mannkynssögunnar. Í kirkjunni er stórfenglegur kórstóll sem kallað er Chorgestühl. Sitt hvorum megin við kirkjugólfið þar sem það liggur upp að altarinu eru sæti fyrir kórinn, skorin úr tré og skreytt í gotneskum stíl með alls konar afskræmdum andlitum og fígúrum. Stólbökin rísa hátt og virðist sem þau gnæfi yfir mann.

Það er stutt síðan ég gerði mér grein fyrir því að þessi reynsla hafði ratað inn í þetta tiltekna verk og þar hafði uppruni og saga gamla bárujárnsins sem ég fann verið kveikjan.

 

3. Abstraktmálverk

Þegar ég byrjaði fyrst að mála var mér efst í huga að læra handbragðið og að fara með tækin sem þarf til að vinna í þennan miðil. Ég er arkitekt og mér fannst það spennandi hvað málaralistin er frjáls og óheft í samanburði við arkitektúrinn þar sem praktísk sjónarmið takmarka ávallt möguleikana, kostnaðaráætlanir, byggingarreglugerðir og óskir kaupandans.

Um nokkurt skeið reyndi ég að forðast öll form, að vera laus við öll höft, uns ég gerði mér grein fyrir því að þessi viðleitni var sjálf orðin heftandi. Þá varð til eitthvað sem ég kalla “negatíft form”, eins og pappírsleifarnar sem verða eftir þegar maður hefur skorið út eitthvert þekkjanlegt form, til dæmis hring eða þríhyrning. Þessi form voru ekki (og eru ekki) þekkjanleg og fyrirstilla ekkert. Þeim er heldur ekki ætlað að takmarka sjónarhorn áhorfandans eða túlkun hans. Ég ákvað ekki meðvitað að byrja að mála abstrakt; það einfaldlega gerðist af sjálfu sér.

Þegar ég var ekki lengur upptekin af því að fylgja reglum olíumálverksins eða tileinka mér einhverja hugsýn um fullkomið handverk fóru þau hugsanamynstur og verklag sem ég hafði tileinkað mér sem arkitekt að rata inn í málverkin. Þannig gat ég þróað mína eigin aðferðarfræði innan miðilsins. Þá gat ég aftur farið að skoða hina ýmsu þætti í ferlinu, þróun þess og merkingu. Nýjar upplýsingar bættust í samklippið og þess sáust merki í málverkum mínum.

Eitt af því sem mér þykir áhugavert í samanburði á málverki og arkitektúr er það að á meðan arkitektinn býr til teikningar sem verða eins konar uppskrift að veruleika sem annars er ekki til nema í huga hans getur málverkið orðið að eins konar skráningaraðferð sem endurspeglar tiltekna sýn á veruleikann. Abstraksjónin er frjálsari en fígúratíft málverk og þetta frelsi fest í því að geta teiknað upp samhengi. Möguleikarnir til að tengja og taka ákvarðanir eru mjög opnir, allt þar til verkið er fullunnið. Þannig er hinn opni og sveigjanlegi rammi sem ég leyfi verkum mínum að þróast í. Þótt samheldni og rökræna skipti mig miklu máli í sköpunarferlinu vil ég líka að verkið og verklagið geti mótast eftir aðstæðum og forsendum hverju sinni, staðsetningunni, efninu, hugarástandi mínu, o.s.frv. eftir því sem við á.

 

4. Verkin

Fyrstu verkin sem ég vann úr hundrað ára gömlu bárujárninu úr Villingaholtskirkju voru þrjár altaristöflur sem hver hafði þrjá vængi. Ég hengdi þær á hvíta veggi í sýningarrýminu til „tilbeiðslu“. Í næstu útfærslu notaði ég átta plötur sem festar voru á krosstré svo þeim má raða saman á hvaða veg sem er en þó er gyllt lína sem alltaf tengir plöturnar saman. Þriðja leiðin er farin í verkunum á þessari sýningu og þar með er ég líka búin að nota upp allt járnið.

Línan í sýningarrýminu sem þessu verki var valið er kjörin fyrir útfærslu sem vísar til upprunalegrar notkunar efnisins. Gengið er inn þvert á rýmið en þegar inn er komið áttar maður sig strax á lengd þess og þá getur maður líka séð að plöturnar eru hengdar upp með hliðsjón af því hverning dýrlingamyndir eða kórstólar raðast upp í kirkju þar sem prósessían gengur upp að altarinu.

Verkið skilgreinist af þessum hlutum þess, af rýminu og afstöðu áhorfandans til þess. Þannig getum við velt fyrir okkur áferð og lit efnisins sem engu máli skipti þegar það var upprunalega tekið til notkunar en verður meginviðfangsefnið hér. Hinu ytra byrði kirkjunnar í Villingaholti er hér snúið inn á við og tekið til íhugunar. Tækni, litur, efni og uppröðun vísa á hljóðlátan hátt til forskrifta kirkjunnar en hinni hefðbundnu reglu er snúið á hvolf og merking prósessíunnar og rítúalsins breytist. Hver einstaklingur getur upplifað verkið fyrir sig og reynsla hans getur verið samtímis mjög persónuleg og algild.

 

Maja Siska

Helene Renard

þýðing: Jón Proppé