C: Íslenska, Jón Proppé

Maja Siska er fædd í Þýskalandi en hefur búið á Íslandi frá árinu 2000. Hún á að baki fjölbreytt nám í listasögu, ljósmyndun og arkitektúr en hefur líka fengist við málverk síðustu ár. Ég kynntist henni þegar ég kom sem gagnrýnandi að námskeiði (svokölluðum master class) sem Bjarni Sigurbjörnsson málari kenndi. Þar sýndi Maja mér verk sem hún hefur málað á gamlar bárujárnsplötur sem áður klæddu kirkjuna í Villingaholti frá árinu 1911 til 1979. Ég hreifst af þessum verkum enda fer þar saman nærfærnisleg notkun efniviðarins og fínleg framsetning listamannsins svo úr verða myndverk sem tala til áhorfandans á mörgum sviðum, vekja upp fortíð og sögu með efninu einu en tengja það líka við menningarsögu okkar og kirkjuhefð, ekki síst þar sem Maja notar hið þrískipta form sem svo víða sést í gömlum íslenskum altaristöflum.Loks málar Maja á bárujárnið en fellur ekki í þá gryfju að tengja málverkið efninu með augljósum táknmyndum heldur beitir einföldum formum og hreinum litum sem eins og hreinsa og opna huga áhorfandans frekar en að beina honum einhverja eina braut í upplifun verkanna. Fyrir vikið verða áhrifin sterkari og frammi fyrir myndunum vakna sterkar hugrenningar um sögu þjóðarinnar, tengingu nútíma og fortíðar og samþættingu hins andlega og efnislega í lífi þjóðar.

 

Þáttur bárujárnsins í lífsbaráttu Íslendinga og þær miklu framfarir sem urðu með tilkomu þess verður seint ofmetinn. Mikilvægi þessa látlausa byggingarefnis í landinu lýsir líka sjálfsbjargarvilja þjóðarinnar og þeim anda sem með Íslendingum bjó þegar þeir voru að brjótast upp úr vosbúskap fyrir hundrað árum og draga sig fyrir eigin afli inn í nútímann. Mér þætti sérstaklega vel til fundið að sýna verk Maju í anddyri Hallgrímskrikju, stærstu steinkirkju Íslands sem stendur í miðri Reykjavík. Verkin standa fyllilega undir því að sjást á þessum stað þótt þar séu auðvitað alla jafna sýnd fínlegri og „hátíðlegri“ verk; hér væri það einmitt samspil hins grófa og veðraða bárujárns við hátíðlegt umhverfið sem mundi draga fram inntakið og draga huga gestsins að fortíðinni og sögunni, samhengi hinnar nýju krikju og sveitakirknanna sem aldamótakynslóðin klæddi járni til að verja helgidóm sinn og sóknarbörnin fyrir veðri og vindum. Þá hafa verk Maju enn eina tilvísun sem vert væri að draga fram í umhverfi krikjunnar, nefnilega þá að líkt og bárujárnið varð bjargvættur Íslendinga þegar það kom fyrir rúmri öld er það nú helst byggingarefni þeirra í fátækrahverfum þriðja heiminum sem ekki eiga völ á betra en þrá að koma sér í hús og stefna hærra en kynslóðin á undan.

 

Slíkar tengingar mætti auðveldlega draga fram með textum og jafnvel ljósmyndum, verði myndir Maju sýndar, en þó tala þær fyrst og fremst sjálfar og þurfa ekki mikilla skýringa við. Það er einmitt styrkur þeirra og list Maju.

 

 

Reykjavík 3. desember 2006

 

Jón Proppé, heimspekingur og listgagnrýnandi